Ferskeytlan er Frónbúans fyrsta barnaglingur

Hjörtur Kristmundsson var skólastjóri í Breiðagerðisskólanum, sem var  barnmargur skóli í smáíbúðahverfinu.  Hann er enn starfræktur.  Ég gekk í þennan skóla upp úr miðri síðustu öld og olli skólavist mín mikilli mæðu nokkurra annars ágætra kennara. 

Hjörtur var eftirminnilegur persónuleiki og skemmtilegur. En hann var strangur og það var ekki gaman að vera tekinn á teppið hjá honum. 

Hann var bróðir Steins Steinarr (Aðalsteins Kristmundssonar) og hafði skáldgáfu eins og Steinn.  Þessi staka er eftir Hjört:

Árin tifa, öldin rennur;

ellin rifar seglin hljóð;

fennir yfir orðasennur,

eftir lifir minning góð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sverrir Einarsson

Ég var í þessum góða skóla líka en bara upp úr miðri síðustu öld (mikið finnst mér ég gamall þegar ég set þetta svona upp hehe). Svona eins og þú lýsir þá var ég líka mikil "armæða" fyrir marga kennara sérstaklega "öðlinginn" hann Gunnar yfirkennara, en ekkert var verra en að vera tekinn til skólastjórans af honum, það gerði steinbítstakið sem hann tók mig alltaf, þegar ég var búinn að snúa eyrnatakið hans af mér. Ekki hlaut ég skaða mikinn af þessarri trakterkingu. Þetta væri sennilega kært til barnaverndar í dag sem "ofbeldi" en eins og mér einum var lagið þá tókst mér fyrir rest að "læra" á Hjört skólastjóra (sem betur fer). Skýringin er sú að ég var "upp á kant við flestar reglur ( enda ofvirkur í meira lagi sem barn) og rakst því illa í hóp, hvað þá í heilu regluverki eins og svo barnmargur skóli sem Breiðagerðisskólinn var á þessum árum þegar Bústaðahverfið var að byggjast upp.

Það að "læra" á Hjört fólst í afar einföldum hlut. Skólakvæðunum, þau fannst mér öll hunleiðinleg, við þurftum að læra helling af þessu "þrugli" utanbókar og fara með í tímum og mér gekk þetta herfilega vegna þess  eins að "verða" og "eiga" að gera þetta. En eitt skáld skar sig úr og var í mikklu uppáhaldi hjá mér strax, vegna þess að það var allt öðruvísi skáldskapur en hin "venjulegu kvæðin". Þetta voru ljóð Steins Steinarrs, hann var öðruvísi og ég tók ástfóstri við hann, en vissi ekki að bróðir hans væri skólastjóri, tengdi ekkert þar á milli og ekki var okkur sagt það í tímun (hafi það verið gert hefur það farið verulega framhjá mér eins og margt annað í tímum). En nóg um það. Eitthvert sinn sem oftar var ég á teppinu hjá Hirti og hann þagði þessarri ægilegu þögn og leit á mig illilega þessi brúna þungi maður.....en þagði, sem var ægileg ógnun vegna þess að þá var hann að hugsa refsinguna við "brotinu" en brotin voru öll þau sömu hjá mér "óþægð í tímum". Sem við erum þarna að ræða "námið" komu upp umræða um þessi "fjandans skólaljóð" og ég man ég lét hann alveg heyra mína skoðun á þeim á tærri Íslensku, eða þannig NEMA þessum eina þ.e.a.s. Steini Steinarr ég sagði að þetta væri sko "skáld að mínu skapi". Til að gera langa sögu stutta þá varð niðurstaðan að þessum fundi sú að ég færi með eitthvert ljóð eftir Stein í hvert skifti sem ég væri tekinn á teppið en aukalega einu sinni í viku ef ég væri án refsingar þá vikuna. Við urðum mestu mátar eftir þetta og óttinn við að "vera tekinn til skólastjórans" hvarf upp frá þessu fyrir utan að það var ekki alveg sama hver fór með mig þangað, óttinn við Gunnar yfirkennara var verstur en hvað um það minni barnaskóla óþægð var borgið og Þökk sé Steini Steinarr fyrir það.........en ég þyrfti nú að standa upp og ná í einhverja af bókum Steins í dag ef ég ætti að vitna í hann svona fríhendis.......sem er kannski gott og tími kominn til. Þú fyrir gefur hvað þetta er langt en þetta rifjaði bara upp svo skemmtilega óþægilegar minningar við lesturinn á blogginu þínu.

Sverrir Einarsson, 9.12.2008 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband