Christchurch

Við komum hingað til Christchurch fyrir tveimur vikum. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki sett inn neina færslu er sú að það hefur tekið dágóðan tíma að fá internetið. Það kom í hús fyrir 2 dögum. Eins og nærri má geta var þessi viðburður mikið fagnaðarefni fyrir unglingana á heimilinu.Þau eru með sína iPada og nota þá allmikið, mest þó í tenglum við námið en einnig til annars.

Það kom í ljós strax eftir komu okkar hingað að skólaleyfi hófst fyrir viku og byrjar aftur eftir viku. Þau hafa því haft góðan tíma til þess að dunda sér við ýmislegt annað en nám, hafa æft sig á sín hljóðfæri og verið eitthvað að vinna að verkefnum (sjónvarpið hefur þó verið oft það sem hefur verið í 1. sæti). Þau eru búin að fá meirihlutann af sínum skólabúningum sem eru bara mjög fallegir og klæðilegir. Ég á eftir að setja inn myndir af þeim klæddum í þessi herlegheit.

Við keyptum notað píanó fyrir Baldvin sem er bara alveg brúklegt en á eftir að stilla. Við lifum annars bara rólegheitalífi, erum mest heimavið en förum á okkar 13 ára gamla bíl um borgina sem við erum aðeins farin að rata um enda þótt við notumst mikið við leiðsögukerfi í símunum okkar. 

Hér er miður vetur, allkalt í veðri, frost margar nætur og mikill raki. Þvottur þornar illa og í morgun þurftum við að skafa léttan snjó af bílrúðum. Vorið kemur í september og er fram í nóvember en þá er von á sumrinu sem er víst bara allheitt oft á tíðum. Auðvitað hlökkum við til þess. 

En hér "down-under" eru allir frískir og kátir. Meira um hagi okkar á næstu dögum. Ég ætla að reyna að setja inn einhverjar myndir líka.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband