30.10.2008 | 22:52
Verðbréfasalinn
Í júlí 2005 gaf ég út geisladisk með 13 lögum sem ég hafði samið. Diskurinn heitir Plokkfiskur, (sönglög handa íslenskri alþýðu). Eitt laganna heitir Verðbréfasalinn, efni sem mér var hugleikið þá en á fullt erindi ennþá og kannski ekki síður nú en þegar þetta var samið. Lagið er á tónlistarspilaranum hérna vinstra megin.
Verðbréfasalinn
Verðbréfasalinn hann fór ekki til vinnu í dag,
Hann sagðist þurfa að koma heilsunni betur í lag,
Hann vinnur eins og svín,
Og kemur seint heim til sín,
Hann kann svo æðislega, ofboðslega vel við sitt fag.
Læknirinn sagði að líkaminn væri í rúst,
Láttu það nú eftir þér að taka þér frí í ágúst,
Nei, ég hef ekki efni á því,
Því mig vantar húsgögnin ný,
Ég vil alls ekki enda mína ævi upp á gamalli þúst.
Út að borða í hádeginu hátt settum mönnunum með,
Ég held ég verði að segja að það er mér ekki þvert um geð,
Við spáum vísitölu í,
Og vinnum allir í því,
Að verðbréfavæða jafnvel aumustu og smæstu peð.
Ég ætla að flytja í æðislegt einbýli í Arnarnesið,
Og ekkert verður sparað þegar innrétta á eldhúsið,
Ég vil aðeins það besta,
Já öfund altekur flesta,
Sem finnst þeir ættu að hafa það jafn andskoti gott eins og við.
Ég auka vinnu tek að mér og ekki það eftir mér tel,
Mig endilega vantar nýja alsjálfvirka þvottavél,
Og nýjan gemsa að tala í,
Og silkibindi frá Malí,
Ég ömmu mína fyrir skít og kanel samviskulaus bara sel.
Verðbréfasalinn hann kom ekki til vinnu í dag,
Hann verður jarðsunginn næsta miðvikudagseftirmiðdag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.