Ekkert vit, engin hemja

Í hausthefti Skírnis, tímariti hins íslenska bókmenntafélags, er snörp ádeila á stjórnvöld og útrásarvíkinga og aðra þá sem ábyrgir eru fyrir efnahagshruninu á Íslandi eftir Þorvald Gylfason, prófessor í hagfræði.  Greinin nefnist: "Ætlar linkindin aldrei að líða hjá" og leyfi ég mér hér með birta niðurlag hennar:


VII. Ekkert vit, engin hemja

Það hefði átt að blasa við hverjum heilvita manni, að umsvif útrásarvíkinganna og vina þeirra í bönkunum og stjórnmálaheiminum náðu engri átt. Enginn atvinnurekstur stendur undir svo augljósri vitleysu. Tökum kvótakónginn, sem keypti sér þyrlu, af því að honum hentaði ekki stundatafla áætlunarflugsins milli lands og eyja. Tökum bankaeigandann, sem byggði sér hús í Reykjavík með skotheldum rúðum í gluggum og fullbúinni skurðstofu inni í íbúðinni. Tökum allt fólkið, sem keypti sér rándýr hús til þess eins að sprengja þau í loft upp og byggja enn dýrari hús á lóðunum. Tökum bankastjórana og starfsmenn þeirra, sem tóku sér laun, sem stóðu bersýnilega í engu samhengi við vinnuframlag þeirra, eins og kom á daginn. Tökum nýbyggingarnar í þjóðgarðinum á Þingvöllum, sem á þó að heita friðlýst land. Ekkert af þessu náði nokkurri átt, og mætti þó hafa listann miklu lengri. Taumlaus græðgin í bönkunum tók út yfir allan þjófabálk. Eigendur bankanna röðuðu stjórnmálamönnum í kringum sig öðrum þræði að því er virðist til að kaupa sér frið. Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum aðstoðarmaður forsætisráðherra sat til dæmis í stjórn sjóða Glitnis þar til bankinn hrundi. Hvað var hann að gera þar? Eigendur bankanna notuðu þá til að lána sjálfum sér og fyrirtækjum sínum til vafasamra fjárfestinga og fólu stjórnendum og starfsmönnum bankanna að ráðleggja viðskiptavinum að flytja sparifé af tryggðum innlánsreikningum yfir í ótryggða sjóði, sem voru hálffullir af verðlitlum eða verðlausum pappírum eigendanna. Þessi háttsemi bankanna varðar við lög og hefur rænt mikinn fjölda sparifjáreigenda miklu fé. Það ýtir undir gamla tortryggni, að ákæruvaldið skuli ekki hafa látið strax til skarar skríða gegn bönkunum eftir hrunið frekar en að boða mörgum vikum síðar til veiklulegrar athugunar á því, hvort lög kunni kannski að hafa verið brotin. Silagangur ríkisstjórnarinnar síðan bankarnir hrundu vekur ekki heldur traust. Eina færa leiðin til að endurreisa nauðsynlegt traust milli manna inn á við og álit Íslands út á við er að spúla dekkið. Stjórnmálastéttin hefur brugðizt, big time. Hún þarf að draga sig möglunarlaust í hlé, víkja fyrir nýju fólki og veita því frið til að leggja grunninn að endurreisn efnahagslífsins og réttarkerfisins með góðra manna hjálp utan úr heimi.

Ekkert minna dugir.
Góðar stundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband