Markmið og leiðir

Mér er ekki fyllilega ljóst hvað varð til þess að ég fór að skrifa blogfærslur.  Það er stutt síðan, ekki einn mánuður.  Ég vissi lítið um þennan miðlunarvettvang, taldi hann vera einhvers konar margmiðlun meðal fólks um hin ýmsu málefni en sjálfur hafði ég lesið lítið af blogfærslum.                                                                                            

En fyrir tæpum mánuði sat ég heima hjá mér að kvöldlagi við tölvuna og var að lesa fréttir og einhvern veginn álpaðist ég inn á áhugaverðan pistil á blogsíðu.  Fyrr en varði var ég kominn með mína eigin blogsíðu og farinn að skrifa.  Þetta var upphafið.

 

Dagarnir liðu einn af öðrum og ég var farinn að hafa gaman af þessum tjáningarmáta.  Ég setti inn tónlist og fór að krydda svolítið umræðuna með færslum í léttari kantinum. Ég hvarf þannig inn í blogheima nánast óafvitandi.  

 

Hending réði því að einmitt þegar ég fór að skrifa mínar blogfærslur var umræðan í þjóðfélaginu orðin mjög mikil og hávær um efnahagshrunið.  Ég fór að blanda mér í þjóðmál, sem ég hef lítið gert af áður. Hef verið nánast ópólitískur og haldið mig til hlés í slíkum umræðum.  En nú var ég orðinn orðhvass og ég varð skotfastari með hverjum deginum sem leið og fór mikinn. 

 

Þegar ég lít um öxl sé ég svo sem ekki eftir neinu af því sem ég hef sett á mína blogsíðu.  En mér finnst vera tímabært að staldra aðeins við og ígrunda á hvaða leið ég er og hvert sé stefnumarkið.                                                                                                                 

Mér finnst þessi vettvangur áhugaverður og hann hefur gefið mér tækifæri til þess að koma á framfæri skoðunum mínum. Ég hefði ella ekki látið þær í ljós, heldur haft með sjálfum mér. 

 

En allt orkar tvímælis þá gert er.  Allar nýjungar sem fram koma og hafa notagildi er líka hægt að misnota.  Þetta á við um blogið ekki síður en hvað annað eins og farsíma eða bara sjónvarp.  Á blogsíðum eru setningar og staðhæfingar sem kannski eru ekki alltaf til fyrirmyndar fyrir höfundana. En margar blogsíður eru til mikils sóma fyrir þá sem þar skrifa. Svo er nú alltaf gaman þegar maður hefur smávegis tónlist og húmor með.     

 

Mér finnst þannig að nú sé tímabært að leggja stóru orðin til hliðar og að láta hina hvössu og neikvæðu umræðu í þjóðfélaginu ekki lita jafnmikið skrifin og verið hefur síðustu vikurnar.  Nú sé tímabært að lyfta umræðunni á aðeins hærra plan og að ýta úr vör hugmyndum um endurbætur á okkar þjóðfélagi.   

 

Fortíðin er liðin, við fáum henni ekki breytt, en við getum dregið lærdóm af henni.  Lærdómurinn mun, ef við viljum sjálf, skila okkur og afkomendum okkar betra þjóðfélagi. Við erum sammála um markmiðið en kannski ekki um leiðirnar.   

 

Ég ætla því á næstunni að beina skrifum mínum meira í þá átt að finna jákvæðu hliðarnar, að finna leiðir til þess að láta mótbyr verða að meðbyr.  Ég vona að þannig verði skrif mín fremur til sóma en vansa.  

 En meira um það á morgun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég hef oftlega sagt að bloggeríið sé einhverskonar andleg ruzlafata viðkomandi, & sé í því sáluhjálp frekar en helsi.

Ég alla vega sagði þetta oftar en með minni sannfæríngu áður en ég byrjaði seint & illa að blogga sjálfur.

En ég mun leggja við eyra sem auga við þínum skrifum jákvæðum.

Svoleiðis færzlur eru líka nauðsynlegar.

Steingrímur Helgason, 26.11.2008 kl. 22:06

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég fæ útrás á blogginu, því á mínum vinnustað er ekki mikið hægt að tjá sig um þjóðmálin.....þannig að sennilega er þetta rétt mat hjá Steingrími varðandi mig að "bloggeríið" sé mér andleg ruslafata og ég fæ andlega sáluhjálp út úr þessu.  Ég brýt þetta samt upp með nokkurskonar dagbókarfærslum annað slagið

Sigrún Jónsdóttir, 26.11.2008 kl. 22:51

3 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Þakka ágæran pistil og vona að blogg okkar bloggara geti orðið til góðs og orð okkar jákvæð og uppbyggjandi, fremur en neikvæð og niðrandi.

Jón Halldór Guðmundsson, 27.11.2008 kl. 00:44

4 identicon

Það er einmitt það. Fortíðin endaði áðan og framtíðin byrjar núna.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 07:03

5 identicon

Hugmyndir um þjóðfélagslega uppbyggingu og endurbætur hljómar áhugavert.  Ég hlakka til að lesa meira :-)

Hildur Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 07:36

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Bloggið er vandmeðfarið og maður á að hugssa áður en maður ýtir á vista, en stundum gleymist það. Jákvæðar og skemmtilegar færslur eru nauðsyn.  Hafðu það sem best.

Ásdís Sigurðardóttir, 27.11.2008 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband