Króna á floti eða föstu

Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, hefur eins og margir hagfræðingar ákveðnar skoðanir á krónunni, evrunni og ESB.  Í mjög góðri grein sem mun bíða birtingar í tímaritinu Herðubreið viðrar hann sínar skoðanir hvað þetta varðar.  Ég leyfi mér að birta niðurlag greinarinnar með góðfúslegu leyfi höfundar: 

"Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur að undanförnu fært út kvíarnar til að svara kalli og kröfum tímans. Hann gætir sín nú betur en áður á að miða efnahagsráðgjöf sína við hvort tveggja í senn: að leysa skammtímavandann, sem við er að glíma á hverjum stað, til dæmis gjaldeyriskreppu eða fjármálakreppu, og treysta um leið hagvaxtargetu þjóðarbúsins til langs tíma litið. Sjóðurinn er þó litblindur í pólitík og verður að vera það. Stjórnmálakreppur eru ekki í verkahring sjóðsins. Þessu er nauðsynlegt að halda til haga vegna þess, að gagnrýnendur sjóðsins lýsa honum stundum sem alþjóðlegri efnahagslögreglu, sem valtar yfir grunlaus aðildarlönd og neyðir þau í nafni vafasamrar hugmyndafræði til að gera ráðstafanir, sem þau myndu ekki grípa til af fúsum og frjálsum vilja. Þessi gagnrýni á sjóðinn er að minni hyggju misráðin. Hagfræðingar sjóðsins eru ekki í pólitík og verða að beygja sig undir stjórnmálin á hverjum stað, hvort sem þeim líkar það vel eða illa. Sjóðurinn semur við einræðislönd án þess að ráða þeim að taka upp lýðræði, enda er hann ekki þeim vopnum búinn, að hann geti skipt sér af stjórnmálum aðildarlandanna.  Með líku lagi getur sjóðurinn ekki heldur skipt sér af því, hvort Ísland gengur í Evrópusambandið og tekur upp evru eða ekki. Ákvörðun um það er íslenzkt innanríkismál og kemur sjóðnum ekki við. Ef ríkisstjórnin hefði sagt við sjóðinn, að hún ætlaði að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evruna við fyrstu hentugleika, og það hefði hún að minni hyggju átt að gera, þá hefði sjóðurinn þurft að lúta þeirri ákvörðun. Og þá er ekki víst, að ákveðið hefði verið að setja krónuna aftur á flot eins og gert var og taka þá áhættu, að krónan eigi eftir að falla talsvert til viðbótar við það gengisfall, sem orðið er. Þá hefði komið til greina að festa krónuna t.d. í 150 krónum á hverja evru, nota aukinn gjaldeyrisforða til að halda genginu föstu þar eða þar um bil og búa þannig til lárétta rennibraut inn í Evrópusambandið og Myntbandalag Evrópu líkt og Eystrasaltslöndin gerðu snemma á síðasta áratug. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa ljáð máls á þessum kosti. Hann er enn í boði."
mbl.is LÍÚ vill einhliða upptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þessi yfirlýsing frá stjórn LÍÚ kemur okkur í Hreyfingunni Dollar Strax ekki á óvart. Allir hugsandi menn eru að átta sig á stöðunni. Krónan er ónýt, ekki vegna þess að blekið á seðlunum sé ekki vatnshelt, heldur vegna þess að okkar tegund af hagkerfi stendst ekki með eigin gjaldmiðil. Dollar er eini alþjóðlegi gjaldmiðillinn og vesalingur eins og Evran koma ekki til álita.

Þeir sem áhuga hafa á málinu ættu til dæmis að líta á eftirfarndi blogg:

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/724755/

http://gunnarwaage.blog.is/blog/gunnarwaage/entry/728920/

Loftur Altice Þorsteinsson, 29.11.2008 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband