Erfðasyndirnar sjö og réttlætið

Nánast öll menningarsamfélög og trúarbrögð að fornu og nýju eiga það sammerkt að fjalla um lesti og dyggðir í fari mannsins.  Græðgi, öfund, óhófsemi og óheiðarleiki eru t.d.  taldir vera neikvæðir þættir í mannlegu fari en hófsemi, nægjusemi, heiðarleiki og vinátta eru taldir til dyggða.  Þetta hefur okkur og verið kennt á íslenskum heimilum og skólum alla tíð og þetta vita flestir.  Þetta heitir víst að hafa siðferðið í lagi.   

 

Dauðasyndirnar sjö (erfðasyndirnar) eru:  Hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi.  Kannast einhver við einherja þessara synda í fari þeirra aðila sem hafa  siglt íslensku þjóðarskútinni í strand?  Ef svo er vinsamlega sendið þættinum bréf. 

 

Í Tímariti Máls og menningar (2. tbl. 2000) er fjallað um niðurstöður rannsóknar á vegum Gallup um það hvað Íslendingar telja mikilvægast í mannlegu fari.  Niðurstöðurnar eru túlkaðar þannig, að nýju íslensku höfuðdyggðirnar séu: Hreinskilni, dugnaður, heilsa, heiðarleiki, jákvæðni, traust, fjölskyldu- og vináttubönd.  (Vísindavefur Háskóla Íslands). 

 

Þessar höfuðdyggðir er það sem við metum mest í fari okkar og þetta viljum við kenna börnum okkar.  Við viljum líka að þau viti,  þegar þau eru komin til vits og ára, að græðgin, óhófið og spillingin sem hefur tröllriðið íslensku samfélagi síðustu misserin er af hinu illa og við viljum að þau viti að þeir sem farið hafa fremst þar í flokki og misst æruna eiga ekki að vera þeirra fyrirmynd.

Það eru allir reiðir á Íslandi í dag og er ekki að undra.  Við höfum flest djúpstæða  réttlætiskennd.  Hinn almenni borgari hefur verið beittur ranglæti, það dylst engum.  Komi fleiri fjármálahneyksli upp á yfirborðið og fái spillingin  að viðgangast munu alvarlegir hlutir gerast, það er næsta ljóst og ætti að vera stjórnvöldum kunnugt.           

 

Við látum ekki fámennan hóp með sérhagsmuni að leiðarljósi leiða okkur áfram lengur.  Sá tími er liðinn, sá hópur verður að víkja af vettvangi og fjárglæramennirnir að gera upp sínar sakir, íslenska þjóðin á rétt á því. Réttlætið mun sigra að lokum.  Það þýðir ekki að segja okkur að bíða, rótttækra aðgerða  er þörf og það STRAX.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband