Opinberun Hannesar

Í Morgunblaðinu í gær geysist Hannes H. Gizurar, rithöfundur og háskólakennari fram á ritvöllum í nokkrum vígaham.  Að þessu sinni er hann með óstolið efni.  Hann ber skjöld fyrir vin sinn og flokksbróður, Davíð H. Oddsson, rithöfund og spéfugl, þann hinn sama og samdi smásöguna Opinberun Hannesar á sínum tíma, sem fjallaði ekki um Hannes H. sjálfan heldur Ödipusarduld fyrrverandi stjórnmálamanns. 

Lýsingu á innihaldi sögunnar er hægt að finna á netinu: 

Handritið að Opinberun Hannesar er skrifað af Hrafni Gunnlaugssyni eftir smásögu Davíðs Oddssonar, Glæpur skekur húsnæðisstofnun. Söguþráðurinn hefur augljósa pólitíska skírskotun og má túlka hana sem ádeilu á svifaseint og umfangsmikið ríkisvald. Því er lýst hvernig Hannes á í mesta basli í samskiptum við lögregluþjóna á lögreglustöðinni og fær ekki þá aðstoð veitta sem að hann þarfnast, sökum of mikillar reglufestu í kerfinu. Gera má ráð fyrir að hér sé ekki um eiginlega gagnrýni á starfsemi lögreglunnar að ræða heldur sé lögregluembættið tákngervingur allra annarra ríkisstofnana. Þá vekur myndin upp áleitnar spurningar um eftirlit ríkisins með fólki í landinu.

 

Menn hafa kannski tekið eftir að Hannes H. Gizurar hefur breytt nokkuð um ritstíl, hinum laxneska stíl bregður ekki fyrir lengur,  en Hannes bregður fyrir sig stíl sumir þekkja bæði úr bókinni Nokkrir dagar án Guðnýjar og einnig mörgum pólitískum ritgerðum fyrrnefnds Davíðs.

 

Í fyrrnefndri grein vegur Hannes á báðar hliðar með sveðju sinni og er Jón Ásgeir Jóhanesson veginn með annarri hendi meðan forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson er veginn með hinni en fóstbróðir hans, fyrrnefndur Davíð, er honum til baks. 

Hannes H. Gizurar ber þannig blak af þessum einkavini sínum, skjöldur hans er stór og mun hann fyrr sár liggja en fóstbróðir hans þurfi að hörfa af vígvellinum. Er ekki meira af Hannesi að segja hér en hans verður getið síðar.       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband