24.11.2008 | 15:28
Glæpurinn gegn íslensku þjóðinni
Ég er venjulegur Íslendingur, alinn upp af venjulegu fólki í landi friðelskandi þjóðar. Ég er ekki fæddur með silfurskeið í munni og hef aldrei þekkt munað né óhóf. Mér varð líka snemma ljóst að ég þyrfti að ala önn fyrir mér sjálfur og að vinnan göfgaði manninn. Ég fékk ekki hlutabréf eða kvóta í fermingargjöf. Mér var einnig kennt að vera ábyrgur í fjármálum. Réttlætiskenndin er mér í blóð borin.
Ég hygg að ég sé þannig eins og flestir aðrir Íslendingar.
Nú hafa þeir atburðir átt sér stað sem stríða svo mjög gegn réttlætiskennd og siðferðiskennd minni að ég fæ ekki orða bundist lengur og því hef ég skrifað daglega og það oft á dag á þessa síðu.
Þrjátíu einstaklingar, eða þar um bil, hafa farið með alvæpni og komið íslenskri þjóð á vonarvöl, valdið efnahagslegu gjaldþroti og atað ímynd landsins og þjóðarinnar auri. Hafi þeir hina mestu skömm fyrir og þeirra gjörðir gegn Íslandi og Íslendingum munu ekki gleymast. Sagt er að við Íslendingar séum fljót að gleyma og fyrirgefa, en svo er ekki í þessu tilviki.
Á meðan þessi glæpur gegn Íslandi var framinn sváfu þeir sem áttu að standa vaktina værum svefni.
Seðlabankastjórinn Davíð Oddsson sem nú gasprar út um víðan völl um eigið ágæti og þykist vita allt og hafi vitað allt en gerði ekkert, og það sem hann gerði var til ógagns og vanvirðu fyrir þjóðina.
Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og forsætisráðherra. Þeir komu allir af fjöllum þegar bankahrunið dundi yfir og klóruðu sér í höfðinu, og eru kannski ennþá að klóra sér í höfðinu.
Nú koma þessir sömu fjárglæpamenn Íslands, sem hafa valtað yfir sína landsmenn á skítugum skónum og þykjast ætla að kaupa Tryggingamiðstöðina og jafnvel Kaupþing í Luxembúrg! Þessir menn sem eru gjörsamlega siðblindir og veruleikafirrtir. Íslendingar vilja ekki sjá þá né heyra, nema þá þegar þeir verða kvaddir til yfirheyrslu vegna glæps sem þeir hafa framið gegn heilli þjóð.
Menn segja að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð. Við skulum þá bara drífa í því að fá þessa fjárglæpamenn til yfirheyrslu og láta þá svara til saka. Ekki bíða í þrjú eða fjögur ár. Réttlætiskennd mín og siðferðiskennd segir mér að þeir séu sekir. Þeir hafa þegar tapað ærunni og fá hana ekki til baka. Og það var þeirra tjón. Þeir fá ekki uppreisn æru eins og Árni Johnsen.
Ég mun ekki linna látum, ég mun halda áfram að tjá mig í orði hér á síðunni og annars staðar, þar til réttlætinu hefur verið fullnægt. Íslendingar munu ALDREI verða sáttir fyrr en þessi mál hafa verið til lykta leidd og Davíð Oddsson látinn víkja úr embætti. Ég mun ekki gefast upp.
Listinn yfir fjárglæpamennina er á blogsíðu minni: lucas.blog.is
Kaupþing fær greiðslustöðvun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Facebook
Athugasemdir
Sammála því að hefja þurfi rannsókn ekki seinna en strax.
pbh (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 15:47
Sammála þér, við verðum þó að hjálpa yfirvöldum, þau virðast helst vilja þegja þetta niður og spenna á okkur þrælabaggann.
Þórður (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 15:53
Hvað heldur fólk svo og veit það að líklega er engin refsi-rammi hjá okkur sem nær yfir þessa þorpara þannig að líklega geta þeir bara brosað og hvatt.
Hannes (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 16:10
Ég hef grun um að verið sé að vinna í þessum málum, ætla að gefa FME og ríkisstjórninni örlítið lengri taum en vildi óska að fjárglæframennirnir yrðu stöðvaðir strax.
Ásdís Sigurðardóttir, 24.11.2008 kl. 16:19
Guðjón, ég er hjartanlega sammála þér í öllu nema hversu vægt þú tekur á ráðamönnum þjóðarinnar. Þetta eru engvir heimskingjar Guðjón. Að sjálfsögðu sváfu þeir ekki á verðinum. þeir vissu fullkomlega hvað var í gangi. Afhverju tóku þeir á ekki í taumanna? Þú getur giskað og ég getað giskað. En það er jú ekki hægt að fullyrða neitt fyrr en ransókn fer fram á þeirra hlut í þessu.. ja, má ég segja landráðamáli. - Þessvegna, Ásdís, á ekki og MÁ EKKI gefa þessum mönnum frið til eins eða neins. Því á meðan geta þeir fjarlægt öll sönnunargögn og sveipt allt í þoku svo aldrei verður hægt að finna fram til hverjir eru sekir og hverjir saklausir.
Thor Svensson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 16:39
Hvernig í ósköpunum er eitthvað samhengi í því að hægt sé að hneppa ungan dreng með 200 þúsund króna ógreidda sektarskuld (jafnvel þó það heiti vararefsing eða eitthvað í þeim dúr) en láta hjá líða að sækja stærstu fjárglæframenn Íslandssögunnar til yfirheyrslu. Svo ekki sé talað um að setja þá í tímabundið skuldafangelsi á meðan á rannsókn stendur. Er verið að gera grín að þjóðinni? Halda lögregluyfirvöld og stjórnvöld virkilega að almenningur kyngi því bara að þeir aðilar sem sátu í ábyrgðarstöðum og var falið að fylgjast með og gæta hagsmuna landsmanna sviku. Svo rækilega sviku þeir að þeir urðu meðvirkir eða var mútað til að þegja á meðan að helstu útrásarvíkingar stunduðu löggildan þjófnað sem við nú súpum seiðið af. Íslenska þjóðin þarf að læra aga og aðhald og að ekki er hægt að komast upp með hvað sem er. Ég bið um eftirfylgni mála.
Anna Karlsdóttir, 24.11.2008 kl. 16:50
Sammála. Spillingarliðið burt strax.
Stærsti þjófnaður Íslandssögunnar þótt víðar væri leitað. Og ekki búið að handtaka neinn, og engin alvöru rannsókn í sjónmáli. Af hverju? Jú vegna þess að þjófar og glæpamenn geta ekki rannsakað sig sjálfa.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 17:03
Þú stalst af mér glæpnum Guðjón; ég var búin að setja saman viðlíka grein til að birta einhvers staðar, já bara einhvers staðar.... og ég er viðlíka reið og mér er viðlíka misboðið. (Ég er mjög viðlíka í dag....)
Gaman annars, fyrir utan allt og allt, að rekast á þig hér!!!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.11.2008 kl. 17:57
Það er reyndar svolítið sem fólk getur gert í stöðunni. Kannski hljómar það fjarstæðukennt í fyrstu, en það er langt í frá ómögulegt. Með smá upplýsingasöfnun og viljugri lögfræðihjálp er hægt að kæra fólk, já og jafnvel einnig ráðherra sem maður meinar af hafi viljandi eða óviljandi gert mistök sem mögulega koma til að hafa áhrif á eins líf. Þetta væri einstakt tækifæri fyrir röskan einstakling eða hóp manna. Þetta gæti sett málin verulega í gang.
Thor Svensson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.