1.12.2008 | 11:00
Sameinaðir stöndum vér - Fullveldishugvekja
Það er ekki ofsögum sagt að umræðan undanfarnar vikur manna á meðal og í fjölmiðlum hafi verið nokkuð einsleit. Og skal engan undra. En hefur sú umræða verið málefnaleg, jákvæð, skilað okkur eitthvað áleiðis? Svari hver fyrir sig, en ég er ekki frá því að hún hafi verið dálítið nöldurkennd á köflum, svo ekki sé meira sagt, og kannski hafa úrræðin ekki alltaf fylgt með. Kannski er of drjúgum tíma varið í að horfa í baksýnisspegilinn.
Ég fór á aðventutónleika í Langholtskirkju í gærkvöldi. Falleg tónlist og notaleg samkoma. Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, fór með hugvekju sem hitti í mark. Hún ræddi um kærleikann að fornu og nýju og hlutverk hans í mannlegu lífi. Auk þess fjallaði hún um þetta sérkennilega fyrirbæri í íslenskri þjóðarsál sem hún nefndi Iss, sem er einhvers konar hæfileg blanda af stærilæti og æðruleysi.
Íslendingar hafa þetta jafnan á hraðbergi ef eitthvað bjátar á, hvort heldur það er smávægilegt eða stóralvarlegt eins og náttúruhamfarir eða hvað annað. Iss, þetta er ekkert, við björgum þessu. Iss, þetta er nú bara smáræði. Það er einhvers konar jákvæður tónn í issinu.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru það ekki vandamálin eða hamfarirnar sem skipta aðal máli, heldur hugarfarið, hvernig við bregðumst við vandanum og hvernig við vinnum okkur út úr vandanum, eða öllu heldur verkefninu. Ekkert er ómögulegt.
Við Íslendingar höfum verið þekktir fyrir að standa af okkur stórhríðir. Hér hafa menn norpað í fimbulkulda öldum saman, hungraðir og fátækir og lifað af. Einhvern veginn virðist mótlætið í gegnum aldirnar hafa hert okkur. Af hverju skyldum við ekki alveg eins standa uppréttir í storminum núna?
Það er líka miklu betra að standa saman í storminum, halda hópinn og styðja hvert annað. Eða hvernig var nú aftur máltækið: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Íslendingar einblína á vandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér; einnig með lögum, skal land byggja en með ólögum eyða; gleymum ekki að í dag er 1. desember, 90 ára afmæli fullveldisins, þann dag 1918 að lokinni 700 ára baráttu forfeðranna, með Jón Sigurðsson í fararbroddi meðan hann var uppi. Verum sameinuð og stöndum vörð um fullveldið, sjálfstæðið og frelsið og skilum landinu sjálfstæðu til eftirkomenda okkar, barnanna og barnabarnanna. Látum ljós aðventunnar lýsa hjörtum okkr. Smyrill
Smyrill (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 11:34
Já, sameinaðir. Við þurfum einmitt að fara að skilgreina okkur sem þjóð með tilliti til þess sem við tilheyrum - erum hluti af. Hingað til hefur kjarninn í sjálfsmynd þjóðarinnar byggst á því að tilgreina það sem við tilheyrum EKKI. Við höfum litið svo á, að sjálfstæði okkar felist í því að við erum EKKI hluti af stærra samhengi.
En nú er tækifæri til að breyta um hugsunarhátt, horfa í nýja átt. Við þurfum að sækja styrk í sameininguna. Sameiningu okkar við Evrópu. Það er gert með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara að nota evru sem gjaldmiðil.
Við erum Íslendingar. Það þýðir, að við erum Evrópubúar. Við þurfum að opna betur fyrir öðrum, þá opna aðrir betur fyrir okkur. Við erum ungt lýðræði, við verðum að sækja aðstoð þangað sem hana er að fá. Læra af reynslu annarra. Ekki hafna henni sem atlögu að fullveldi okkar.
Kristján G. Arngrímsson, 1.12.2008 kl. 14:12
Það þyðir ekki að Polly Önnuleik.Við leysum ekki vandinn með afneitun og tilgerður jákvæðni.
Við þurfum fyrst að fara í aðildarsamninga og sjá hvað byst áður en þjóðin ákveður að ganag inn í Evrópusambandinu
Kannski verða ekkert spennandi í boði eða kannski vilja þeir okkur ekki.
það er ekki hægt að taka afstöðu til með eða á móti á meðan við vitum ekki neitt.
Við felldum samninga um inngöngu í Evrópusambandinu tvisvar í Noregi í þjóðaratkvæðisgreiðslu.
Heidi Strand, 1.12.2008 kl. 14:27
Ef við látum þetta yfir okkur ganga að (lítill) hluti þjóðarinnar geti með aðstoð stjórnmálamanna og eftirlitsstofnanna vísað skuldunum af margra ára rugli til almennings, án þess að nokkur þurfi einu sinni að segja af sér, þá dugar ekkert iss piss - þá erum við bara þrælar og ekkert annað.
Kannski dugar ekki að blogga bara og bölsótast, kannski verðum við að taka upp heygafflana og gerast anarkistar? Ég er allavega hrifinn af tilvísun þeirra í Tómas Paine (úr 2. tölublaði "Lífsmarka):
molta, 1.12.2008 kl. 14:33
Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf.
Áfram Ísland!!!
Johnny Bravo, 1.12.2008 kl. 14:48
Mér finnst þetta ágætur pistill. Þessi neikvæðni sem víða birtist er eiginlega farin að hafa öfug áhrif á mig. Staðan hér á Íslandi er mjög alvarleg og það er ekkert víst að við munum standa upprétt eftir þetta en ég held að reiðin skili okkur ekki miklu. Kannski neyðumst við til að afsala okkur fullveldinu og auðlindum okkar til Evrópusambandsins eins og fólk virðist vilja í dag.
Emil Hannes Valgeirsson, 1.12.2008 kl. 14:54
Isss... Þessi síða chordie.com er snilld en ég vil benda þér á að allir tenglarnir á síðunni þinni eru vitlaust skilgreindir. Þó það komi greininni ekkert við.
Hitt er svo annað að það er erfitt að vera jákvæður, atvinnulaus og reiður allt í senn. En já... þetta reddast!
Ævar Rafn Kjartansson, 1.12.2008 kl. 14:54
Til hamingju með fullveldið
Sigurður Þórðarson, 1.12.2008 kl. 15:45
Einu sinni fyrir löngu heyrði ég einhvern spekingin segja að það væri ekki hægt að stjórna okkur Íslendingum í góðæri en við værum ágæt þegar á móti blési.
Sigurður Jónsson, 1.12.2008 kl. 17:46
Ég lít mjög jákvæðum augum á "gagnrýnisbloggin", því þar finnst mér örla á þori og væntingum til breytinga
Sigrún Jónsdóttir, 1.12.2008 kl. 17:55
Góður pistill Guðjón.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.12.2008 kl. 18:23
Mér finnst reiðin eiginlega jákvæð eftir þessa áratuga þögn. Og það myndast kærleikur á milli manna sem standa saman í mótmælum og verkföllum. Og er það ekki kærleikur líka að vilja ekki bjóða börnum og barnabörnum upp á þessa framtíð? Annars gott að lesa eitthvað hlýlegt þegar komið er inn úr kuldanum.
María Kristjánsdóttir, 1.12.2008 kl. 18:24
Sæll Guðjón
Það er gott ef heilbrigð reiði og þrautalausnar-leit fara saman. Það getur stundum gerst. Ég hefði viljað heyra iss ræðu Kristínar Helgu, hún hefur örugglega verið skemmtileg. Þjóðin er leitandi og þrátt fyrir að fólk láti í sér heyra sé ég engan með molotov kokteil eða alvöru vopn, því Íslendingar ungir sem aldnir eru þrátt fyrir allt friðarsinnar og lítið herlega innrættir. Margir eru fastir í farinu finnst mér og aðrir krefjast nýrrar sýnar, enn aðrir reyna að koma með hugmyndir að lausnum. En eins og er, er lítið af heildarlausnum enda held ég að þær séu ekki í sjónmáli eins og stendur. Ég átti gott samtal við finnskan vin minn sem gekk í gegnum raunir finnsku kreppunnar. Hann er heilbrigður og lifði þá raun ágætlega af, en margir í kringum hann fóru ver. Við Íslendingar verðum að hlúa að hvort öðru og sýna samstöðu, og þá ekki síst gegn öllum þeim tækifærissinnum sem að nú leita færis, en líka gjörspilltum valdafíklum. Breytum veikleika í styrkleika hver um sig og saman!
Anna Karlsdóttir, 1.12.2008 kl. 18:31
Góður og þarfur pisill..
Aldís Gunnarsdóttir, 1.12.2008 kl. 20:49
Góður pistill hjá þér Guðjón. Því miður komst ég ekki á tónleikana í Langholtskirkju, þar sem ég var sjálf að syngja í Þorlákskirkju á aðventustund þar með mínum kór. Það er eins og þú segir hugarfarið sem skiptir máli. Við höfum það í raun að mörgu leyti gott miðað við aðrar þjóðir. Við erum ekki að svelta, við búum ekki við stríð eða styrjaldir þar sem saklausir íbúar eru drepnir án þess að nokkur fái við því gert. Við höfum eins og þú segir, staðið af okkur alls kyns hörmungar og erfiða tíma. En kynslóðin sem nú er uppi hefur aldrei liðið skort, hefur ekki liðið í raun neitt nema kannski örlítið minna af alltof miklu heldur en áður. Eins og hún móðir mín segir, nú er öld raunsæisins runnin upp og aðrir og betri tímar taka við. Það kostar átök en mannskepnan þarf að fá skell til að vakna til lífsins, allavega hér. Við erum ekki á vonarvöl. Það á enn eftir að herða að og það gerist síðla vetrar og fram á vor. Trú, von og kærleikur kemur okkur best og þannig höfum við komist áfram með þessu af vopni í bland við mikla seiglu og óbilandi þrjósku.
Sigurlaug B. Gröndal, 1.12.2008 kl. 21:12
Ágætis pistill. Reiði og sorg er heilbrigðar tilfinningar og ekki ólíklegt að ef tekst að beisla þær og koma þeim í góðan farveg að þær skili sér í einhverju jákvæðu.
En við megum ekki missa okkur né gleyma fólkinu í kringum okkur.
Hólmdís Hjartardóttir, 1.12.2008 kl. 21:12
Kominn tími til að fólk hætti að velta sér upp úr því hver kveikti í húsinu og fari að einbeita sér að því að lifa af, koma sér upp nýjum vistarverum. Lifa við þær aðstæður sem nú eru!, ekki þær sem við vildum að væru, eða ættu að vera. Þeir sem festast í hinu eru verst staddir.
Björn Finnbogason, 1.12.2008 kl. 22:20
Sæll Guðjón, það er rétt að hugarfarið hefur ítrekað hjálpað þjóðinni mikið en jafnframt er það sama hugarfar sem að kom okkur í þá stöðu sem að við erum í núna. Þessi eilífðartrú á að "eitthvað" myndi æra okkur meiri peninga, laun eða tækifæri er meginsök þess að við svona bláeyg skuldsetjum okkur til dauðadags að mestu strax fyrir þrítugt.
Það er gott að horfa á jákvæa punkta, það er gott að leita til æðri máttar eftir sálarró, en jafnframt er hverjum manni afar hollt að horfast í augu við staðreyndir OG taka ábyrgð á því að gera eitthvað í málunum.
Það er endurreisnar tími framundan, en endurreisnin hefst ekki fyrr en að niðurrifsöflin eru ekki lengur við stjórn.
Baldvin Jónsson, 2.12.2008 kl. 00:01
Sæll Guðjón.
Þar nefnilega málið,og nú síðast skrílslætin í dag við Seðlabankann.
Það er kominn tími á að fólk fari að sameina krafta sína í jákvæðum tón og koma þjóðfélaginu á hnén og svo á fætur.en það gerist ekki með endalausum erjum um allt og ekkert.
Ríkisstjórnin þarf að fara að gefa fleiri GRÆN ljós á það sem er óhætt að vinna og svo,frv.þá brosa fleiri og fleiri.
Takk fyrir fínan pistil.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 05:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.