Áríðandi vefbréf til ættingja í útlöndum

Ástandið hefur stundum verið skárra á Los Klakos. Allar bankalínur eru lokaðar og allar hjálparlínur rauðglóandi. Aðrar línur hafa útrásardólgarnir tekið í nefið. Geðdeildirnar eru yfirfullar og bankastarfsmenn fá daglega áfallahjálp sálfræðinga og prestar blessa bankastjóra í bak og fyrir og skvetta vígðu vatni frá Jóni Ólafssyni á tómar bankahirslurnar. Almúginn hímir í kílómetra löngum biðröðum eftir súpu og Bubbi er betlandi á torgum með apa og lírukassa og er kominn á tveggja ára Range Rover (eða Game Over einsog hann heitir víst í dag). Hummer er orðinn að Bummer og Landcruiser að Grandlúser. 
 
Útrásarfroskarnir eru flúnir land á einkaþotunum enda ekkert meira að hirða af landslýð sem er svo mergsoginn og vanaður að meiraðsegja Blóðbankinn og Sæðisbankinn eru farnir á hausinn. Pólverjar flýja í ofboði til friðsamlegri og manneskjulegri landa einsog t.d. Íraks, Afganistan
og Vestmannaeyja. Á hverjum degi sér maður gjaldþrota fólk fleygja sér fram af byggingum í fallegum boga, en það er sívinsæl vandamálalausn á krepputímum. Fólki bókstaflega rignir niður á gangstéttirnar svo maður er í bráðri lífshættu á göngutúrum um bæinn. 

 Þegar maður hringir á Klepp þá kemur sjálfvirkur símsvari: „Þú ert kominn í samband við Klepp. Ef þú hefur fjárfest í íslenskum bönkum, ýttu þá á einn. Ef þú ert farinn að hamstra matvæli í Bónus, ýttu á tvo. Ef þú heldur virkilega að einhver verði látinn sæta ábyrgð á hruninu, ýttu á þrjá. Ef þú treystir stjórnmálamönnum og öðrum íslenskum amatörapaköttum til að leysa úr vandanum, ýttu á fjóra. Ef þér finnst skynsamlegt að sömu hlandaularnir sem áttu stóran þátt í hruninu, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin, sjái um uppbygginguna, ýttu á fimm. Ef þú heldur að krónan sé gjaldgengur gjaldmiðill, ýttu á sex. Ef þú ert búinn að gleyma lofræðum forsetans um útrásarkrimmana, ýttu á sjö. Ef ekkert er valið þá verður þér gefið samband við útibúið við Austurvöll. Þú ert númer 168.537 í röðinni."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband