Að rækta garðinn sinn

 

Efnahagsmálin verða ekki leyst í fjölmiðlum.  En við getum haft áhrif á gang mála með því að koma skoðunum okkar á framfæri varðandi mörg önnur mál eins og til dæmis hvernig við ætlum að koma okkur út úr því ástandi sem við nú búum við. 

 

Íslenska þjóðin er vel menntuð.  Þekking er auðlind.  Hana þarf að beisla.  Þekkingu innan orkugeirans, sjávarútvegs, hugbúnaðar og fleiri atvinnugreina höfum meira af  en margar aðrar þjóðir og gætum nýtt okkur vel til öflunar á gjaldeyristekjum. 

 

Í greinum sem ritaðar hafa verið undanfarið í fjölmiðla hafi komið fram margar snjallar tillögur um það hvernig við getum aukið verðmætasköpun okkar á næstu árum.  Ekki vantar hugmyndaauðgina. En það þarf að móta hugmyndirnar, finna þeim farveg og hrinda þeim svo í framkvæmd.  

 

Það fór að spretta illgresi í garðinum okkar.  Við þurfum að uppræta það.  Plægja jörðina. Sá svo fræjum nytjajurta sem við sjálf og  afkomendur okkar getum uppskorið. 

 

Því það gleymist oft í amstri dagsins að:

 

Það þarf að rækta garðinn sinn.   


mbl.is Nýjar gjaldeyrisreglur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að leysa verkefni

Menn greinir á um leiðir en það þarf að hafa snör handtök.

 

Við höfum verið í miklum ólgusjó undanfarnar vikur.  Og eiginlega hefur skipið strandað.  Það verður að koma því á flot aftur.  Til þess þarf sameiginlegt átak.  Íslenska þjóðin, sem hálf svalt á löngum tímabilum fyrr á öldum og bjó við kröpp kjör nánast fram að undir miðja síðustu öld hefur áður sýnt hvað í henni býr. 

 

Samheldni og samhjálp er einhvern veginn innprentað í íslensku þjóðarsálina þegar illa árar, vá steðjar að eða hörmungar dynja yfir. Þá er eins og við myndum eina samhljóma heild.  Nú lifum við á viðsjárverðum tímum og þarf vart að tíunda hér að viðfangsefnin eru margvísleg og mikil.                                                                                                         

 

Að mínu viti eru vandamál eiginlega ekki til, heldur eru aðeins  verkefni sem þarf að leysa.  Og þau eru þess eðlis að við þurfum að leysa þau saman.

 

Við þurfum að byrja á því að skilgreina verkefnin, sundurgreina þau og gera áætlun hvernig við ætlum að koma íslensku þjóðfélagi fyrst á flot og svo á góða siglingu með byr í seglum. Samstillt átak allra þarf til.  Eðli málsins samkvæmt hafa menn misjafnar skoðanir á því hvernig að málum skuli staðið.  En við erum sammála  um markmiðið. Og þá er bara að hefjast handa, það er ekki eftir neinu að bíða.

 

Meira á morgun. 


mbl.is Mun stórskaða viðskiptalífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögrun og ofbeldi

Ögrandi orð og athafnir og múgæsingur getur leitt til ofbeldis.  Ofbeldi fæðir af sér ofbeldi. Ofbeldi felur ekki í sér lausnir.  Friðsamleg mótmæli og málefnaleg umræða er allt annað. Skoðið þetta myndband.
mbl.is Ræða Katrínar ekki tekin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markmið og leiðir

Mér er ekki fyllilega ljóst hvað varð til þess að ég fór að skrifa blogfærslur.  Það er stutt síðan, ekki einn mánuður.  Ég vissi lítið um þennan miðlunarvettvang, taldi hann vera einhvers konar margmiðlun meðal fólks um hin ýmsu málefni en sjálfur hafði ég lesið lítið af blogfærslum.                                                                                            

En fyrir tæpum mánuði sat ég heima hjá mér að kvöldlagi við tölvuna og var að lesa fréttir og einhvern veginn álpaðist ég inn á áhugaverðan pistil á blogsíðu.  Fyrr en varði var ég kominn með mína eigin blogsíðu og farinn að skrifa.  Þetta var upphafið.

 

Dagarnir liðu einn af öðrum og ég var farinn að hafa gaman af þessum tjáningarmáta.  Ég setti inn tónlist og fór að krydda svolítið umræðuna með færslum í léttari kantinum. Ég hvarf þannig inn í blogheima nánast óafvitandi.  

 

Hending réði því að einmitt þegar ég fór að skrifa mínar blogfærslur var umræðan í þjóðfélaginu orðin mjög mikil og hávær um efnahagshrunið.  Ég fór að blanda mér í þjóðmál, sem ég hef lítið gert af áður. Hef verið nánast ópólitískur og haldið mig til hlés í slíkum umræðum.  En nú var ég orðinn orðhvass og ég varð skotfastari með hverjum deginum sem leið og fór mikinn. 

 

Þegar ég lít um öxl sé ég svo sem ekki eftir neinu af því sem ég hef sett á mína blogsíðu.  En mér finnst vera tímabært að staldra aðeins við og ígrunda á hvaða leið ég er og hvert sé stefnumarkið.                                                                                                                 

Mér finnst þessi vettvangur áhugaverður og hann hefur gefið mér tækifæri til þess að koma á framfæri skoðunum mínum. Ég hefði ella ekki látið þær í ljós, heldur haft með sjálfum mér. 

 

En allt orkar tvímælis þá gert er.  Allar nýjungar sem fram koma og hafa notagildi er líka hægt að misnota.  Þetta á við um blogið ekki síður en hvað annað eins og farsíma eða bara sjónvarp.  Á blogsíðum eru setningar og staðhæfingar sem kannski eru ekki alltaf til fyrirmyndar fyrir höfundana. En margar blogsíður eru til mikils sóma fyrir þá sem þar skrifa. Svo er nú alltaf gaman þegar maður hefur smávegis tónlist og húmor með.     

 

Mér finnst þannig að nú sé tímabært að leggja stóru orðin til hliðar og að láta hina hvössu og neikvæðu umræðu í þjóðfélaginu ekki lita jafnmikið skrifin og verið hefur síðustu vikurnar.  Nú sé tímabært að lyfta umræðunni á aðeins hærra plan og að ýta úr vör hugmyndum um endurbætur á okkar þjóðfélagi.   

 

Fortíðin er liðin, við fáum henni ekki breytt, en við getum dregið lærdóm af henni.  Lærdómurinn mun, ef við viljum sjálf, skila okkur og afkomendum okkar betra þjóðfélagi. Við erum sammála um markmiðið en kannski ekki um leiðirnar.   

 

Ég ætla því á næstunni að beina skrifum mínum meira í þá átt að finna jákvæðu hliðarnar, að finna leiðir til þess að láta mótbyr verða að meðbyr.  Ég vona að þannig verði skrif mín fremur til sóma en vansa.  

 En meira um það á morgun.

Að klóra í bakkann - Sturlungaöld II

Það er vægast sagt ömurlegt og í rauninni pínlegt að fylgjast með þessum manni reyna að upphefja sjálfan sig, réttlæta eigin gerðir og klóra í bakkann endalaust vitandi það að enginn trúir honum lengur.  Ekki frekar en Davíð Oddssyni.  Kannski tilviljun: var ekki Baugsmálið eiginlega persónulegt stríð þeirra tveggja?  Hófst ekki efnahagshrunið á Íslandi með ákvörðun Davíðs Oddssonar á að reyna að ná fram hefndum á Jóni Ásgeiri, sem var jú ein aðal "Stoðin" í Glitni? Eða hvað?  Er þetta ekki bara eins og á Sturlungaöld þar sem réttlæting og hefndir réðu ferðinni?
mbl.is Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafa um að Geir verði skilað

Ég vona að Páll útvarpsstjóri deili þeirri skoðun með  70% landsmanna (skv. skoðanakönnunum) að Geir verði skilað.  Annars var þetta viðtal ágætt, sá það á youtube.com og ráðherrann sýndi ekki gott fordæmi í því.  Öðru nær.


mbl.is Krafa um að viðtali við Geir verði skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manstu haustið 2008?

Haustið 2008 verður lengi í minnum haft á Íslandi.                              

Það var haustið þegar glæpurinn gegn íslensku þjóðinni var opinberaður.

Það var haustið þegar þeir sem voru meðvirkir í glæpnum - ríkisstjórnin, seðlabankastjórar og eftirlitsaðilar - sátu sem fastast og neituðu að yfirgefa stólana. 

Það var haustið þegar fólkið á Íslandi fór að finna verulega fyrir efnalegum þrengingum en ríkisstjórnin aðhafðist fátt, límdi lítinn plástur á svöðusárin.

Það var haustið sem fjárglæpamenn Íslands voru í útlöndum, komu í fjölmiðla og báru af sér allar sakir.

Við munum ekki gleyma þessu hausti, við munum segja börnum okkar frá þessum atburðum og þeirra barnabörnum. 

Þessi jól verða öðruvísi en jólin síðustu ár. 


mbl.is Frostköld jólastemning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvirkni Ingibjargar Sólrúnar

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því í lítilli grein að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra telji ekki nauðsynlegt að skipta um menn í stjórn Seðlabankans áður en lengra er haldið í þeim aðgerðum að koma íslenskum efnahag á réttan kjöl.  "Hún hafi þó áhyggjur af því að Seðlabankinn og ríkisstjórnin gangi ekki í takt". 

Formaður Samfylkingarinnar hefur orðið margsaga í þessu máli og í rauninni veit maður ekkert hvar maður hefur hana.  Hún fer í hringi í kringum hlutina og svarar öllum spurningum með því að fara eins og köttur í kringum heitan graut.  Á borgarafundinum í gærkvöldi svaraði hún annaðhvort ekki spurningum eða fór í kringum þær.

Ingibjörg Sólrún þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum, svara því sem hún er spurð um.  Hún hangir á ráðherrastólnum og ætlar ekki að gefa hann eftir enda þótt 70% íslensku þjóðarinnar hafi beðið hana að víkja (um sinn allavega).  Hún hefur ekki haft tilburði til þess að skapa sér traust. Hún er bullandi meðvirk í undirlægjuhætti forsætisráðherrans þegar kemur að Seðlabankanum. 


Græðgin og valdafíknin

Ég hef lesið greinar Einars Más um efnahagshrunið og séð og heyrt hans mál af borgarafundi í Iðnó á netinu.  Það sem skilur á milli rithöfundar og okkar hinna er hæfileikinn til að sjá hlutina í aðeins öðru ljósi en aðallega þó í því að geta tjáð hugsanir með réttum hætti, frásagnargáfan.  Fáir geta farið í föt Einars Más hvað það varðar.  Hann hefur sömu sýn og við á græðgina og valdafíknina og allan ósómann en honum tekst betur en okkur að koma hugsuninni í orð.  Frábær ræða.
mbl.is Láti sig hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þing sem fyrst

Margrét flutti mjög skelegga ræðu og skýra.  Ég held að hún hafi túlkað nákvæmlega það sem hið venjulega fólk er að ræða um alla daga.  Hún kom öllum atriðum frábærlega til skila og mættu margir þingmenn taka hana sér til fyrirmyndar.  Af hverju höfum við ekki fleira af fólki á borð við hana á Alþingi?


mbl.is Bankaleyndina burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband