Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Erfðasyndirnar sjö og réttlætið

Nánast öll menningarsamfélög og trúarbrögð að fornu og nýju eiga það sammerkt að fjalla um lesti og dyggðir í fari mannsins.  Græðgi, öfund, óhófsemi og óheiðarleiki eru t.d.  taldir vera neikvæðir þættir í mannlegu fari en hófsemi, nægjusemi, heiðarleiki og vinátta eru taldir til dyggða.  Þetta hefur okkur og verið kennt á íslenskum heimilum og skólum alla tíð og þetta vita flestir.  Þetta heitir víst að hafa siðferðið í lagi.   

 

Dauðasyndirnar sjö (erfðasyndirnar) eru:  Hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi.  Kannast einhver við einherja þessara synda í fari þeirra aðila sem hafa  siglt íslensku þjóðarskútinni í strand?  Ef svo er vinsamlega sendið þættinum bréf. 

 

Í Tímariti Máls og menningar (2. tbl. 2000) er fjallað um niðurstöður rannsóknar á vegum Gallup um það hvað Íslendingar telja mikilvægast í mannlegu fari.  Niðurstöðurnar eru túlkaðar þannig, að nýju íslensku höfuðdyggðirnar séu: Hreinskilni, dugnaður, heilsa, heiðarleiki, jákvæðni, traust, fjölskyldu- og vináttubönd.  (Vísindavefur Háskóla Íslands). 

 

Þessar höfuðdyggðir er það sem við metum mest í fari okkar og þetta viljum við kenna börnum okkar.  Við viljum líka að þau viti,  þegar þau eru komin til vits og ára, að græðgin, óhófið og spillingin sem hefur tröllriðið íslensku samfélagi síðustu misserin er af hinu illa og við viljum að þau viti að þeir sem farið hafa fremst þar í flokki og misst æruna eiga ekki að vera þeirra fyrirmynd.

Það eru allir reiðir á Íslandi í dag og er ekki að undra.  Við höfum flest djúpstæða  réttlætiskennd.  Hinn almenni borgari hefur verið beittur ranglæti, það dylst engum.  Komi fleiri fjármálahneyksli upp á yfirborðið og fái spillingin  að viðgangast munu alvarlegir hlutir gerast, það er næsta ljóst og ætti að vera stjórnvöldum kunnugt.           

 

Við látum ekki fámennan hóp með sérhagsmuni að leiðarljósi leiða okkur áfram lengur.  Sá tími er liðinn, sá hópur verður að víkja af vettvangi og fjárglæramennirnir að gera upp sínar sakir, íslenska þjóðin á rétt á því. Réttlætið mun sigra að lokum.  Það þýðir ekki að segja okkur að bíða, rótttækra aðgerða  er þörf og það STRAX.  


Verðlaun: Lúxusþrenna með 101 Reykjavík

 

Þessi gjörningur er auðvitað merki um mikla snilligáfu og mjög ríkt hugmyndaflug.  Þetta leika ekki margir eftir.  Höfundi ætti að verðlauna með afnotum af einkaþotu, snekkjusiglingu og gistingu í 101 Reykjavík í boði útrásarmafíunnar. 


mbl.is Notaði seðil með mynd af Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það brennur! Það brennur!

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn  var á vakt meðan kveikt var í húsinu en kennir því nú um að óvarlega hafi verið farið með eld– óráðsíumenn hafi verið að valsa um á fylleríi- og þess vegna hafi kviknað í. Svo hafi líka verið mikið hvassviðri af hafi, og því hafi farið sem fór.  Þessir sömu menn sem sváfu á verðinum meðan húsið brann eru nú að leita í brunarústunum eins og villidýr  og eru að reyna að harka út lán til þess að byggja upp á nýtt.

 

Ríkisstjórnin og formaður bankaráðs Seðlabankans syngur nú í sama kór og fjárglæframennirnir:  “Vorkennið mér, ég gerði ekki neitt, ekki fara á nornaveiðar, ekki persónugera hlutina, ekki leita að sökudólgum, við munum axla ábyrgð, við sögðum ykkur þetta, við vissum þetta allt saman fyrir, þið verðið að standa saman”.                

 

Hvar í víðri veröld fá brennuvargar að stjórna slökkvistarfi nema á Íslandi?  Brennuvargarnir eru  enn við stjórnvölinn.  Hinir – fjárglæframennirnir - eru í viðtölum í fjölmiðlum þar sem þeir eru að reyna að kría fram vorkunn hjá löndum sínum. Aðrir fjárglæframenn eru í felum í Noregi, Englandi eða annars staðar, sitja í sínum koníaksstofum og telja illa fengið fé meðan landinn er uggandi um hvort hann haldi vinnunni, ef hann hefur ekki misst hana þegar.  Fólkið í landinu hefur á þessum mönnum hina mestu andstyggð.      

 

Það eru þessir aðilar sem bera ábyrgð á því að Íslendingar sem ávallt hafa verið stoltir af uppruna sínum og þjóðerni sínu bera nú kvíðboga fyrir að upplýsa um þjóðerni sitt á erlendri grundu. 


Áríðandi vefbréf til ættingja í útlöndum

Ástandið hefur stundum verið skárra á Los Klakos. Allar bankalínur eru lokaðar og allar hjálparlínur rauðglóandi. Aðrar línur hafa útrásardólgarnir tekið í nefið. Geðdeildirnar eru yfirfullar og bankastarfsmenn fá daglega áfallahjálp sálfræðinga og prestar blessa bankastjóra í bak og fyrir og skvetta vígðu vatni frá Jóni Ólafssyni á tómar bankahirslurnar. Almúginn hímir í kílómetra löngum biðröðum eftir súpu og Bubbi er betlandi á torgum með apa og lírukassa og er kominn á tveggja ára Range Rover (eða Game Over einsog hann heitir víst í dag). Hummer er orðinn að Bummer og Landcruiser að Grandlúser. 
 
Útrásarfroskarnir eru flúnir land á einkaþotunum enda ekkert meira að hirða af landslýð sem er svo mergsoginn og vanaður að meiraðsegja Blóðbankinn og Sæðisbankinn eru farnir á hausinn. Pólverjar flýja í ofboði til friðsamlegri og manneskjulegri landa einsog t.d. Íraks, Afganistan
og Vestmannaeyja. Á hverjum degi sér maður gjaldþrota fólk fleygja sér fram af byggingum í fallegum boga, en það er sívinsæl vandamálalausn á krepputímum. Fólki bókstaflega rignir niður á gangstéttirnar svo maður er í bráðri lífshættu á göngutúrum um bæinn. 

 Þegar maður hringir á Klepp þá kemur sjálfvirkur símsvari: „Þú ert kominn í samband við Klepp. Ef þú hefur fjárfest í íslenskum bönkum, ýttu þá á einn. Ef þú ert farinn að hamstra matvæli í Bónus, ýttu á tvo. Ef þú heldur virkilega að einhver verði látinn sæta ábyrgð á hruninu, ýttu á þrjá. Ef þú treystir stjórnmálamönnum og öðrum íslenskum amatörapaköttum til að leysa úr vandanum, ýttu á fjóra. Ef þér finnst skynsamlegt að sömu hlandaularnir sem áttu stóran þátt í hruninu, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin, sjái um uppbygginguna, ýttu á fimm. Ef þú heldur að krónan sé gjaldgengur gjaldmiðill, ýttu á sex. Ef þú ert búinn að gleyma lofræðum forsetans um útrásarkrimmana, ýttu á sjö. Ef ekkert er valið þá verður þér gefið samband við útibúið við Austurvöll. Þú ert númer 168.537 í röðinni."


Of seint því miður

Þessir menn eru auðvitað í mikilli örvilnan að reyna að klóra í bakkann og halda að þeir fái hina glötuðu æru aftur sem er nú ekki líklegt til árangurs.  Þessi flokkur manna hefur gert svo mikinn skaða að þeim er sæmst að halda sig til hlés, og hverfa síðan af sjónarsviðinu.  Kannski er veruleikafirringin ennþá að þvælast fyrir þeim. 
mbl.is Varpa þarf ljósi á ýmislegt sem gerðist í aðdraganda hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guttormur og hamborgararnir

Þegar ég fór í búð áðan til að kaupa hamborgara á grillið í kvöld var mér hugsað til vinar míns Guttorms.  Þessi eftirmæli fékk ég send í pósti um hann: 

"Látinn er í Reykjavík nautið Guttomur, 14 vetra að aldri.  Minningarathöfn verður haldin á veitingastaðnum Argentínu í kvöld.  Guttormur dvaldi mest alla ævi sína í Húsdýragarðinum í Laugardal þar sem hann starfaði lengst af sem þarfanaut. 

Hann stundaði á sínum tíma nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri enda talinn kýrskýr með afbrigðum.  Hann var snemma áhugasamur um kýr og í raun haldinn algjörri kúadellu.  Hann lagði því stund á kúariðu með ágætis árangri og var lengst af kúaður þannig að fáir hafa leikið það eftir.

Guttormur þótti einnig listhneigður með afbrigðum og naut sín vel á kúasýningum.  Þess má einnig geta í því sambandi að enn stendur uppi einkasýning á verkum hans í Gallerí Kjöt.  Þá gaf Guttormur út þrjár ljóðabækur, "Baulaðu nú Búkolla mín", "Naut í flagi" og Róst bíf og remólaði".  Eftirlifandi eiginkú Guttorms er Búkolla.  Guttormur lætur eftir sig 24 kálfa.  Útför hans fer fram frá kjötvinnslu SS síðar í vikunni."


Bo, Kristján og lækningamáttur tónlistarinnar

Í gærkvöldi var ágætis viðtal við söngvarana Björgvin Halldórsson og Kristján Jóhannsson í sjónvarpi.  Hvorugur þeirra hefur þótt hæverskur í gegnum tíðina en í gærkvöldi kvað við svolítið annan tón í orðræðu þeirra.  Þeir ræddu auðvitað um tónlistina sem er þeirra ævistarf  og hvernig tónlistin hefur mótað líf þeirra.  Í spjalli við þá félaga kom einnig fram sú velþekkta staðreynd að tónlistin er án landamæra, hún er græðandi og gefandi.  Þetta er aldrei of oft sagt og nú þegar margur á um sárt að binda og erfiðleikar steðja að er gott að hafa tónlistina sem meðal og leita á náðir hennar frekar en annars.  Hún sefar og róar, veitir manni andlegan styrk, og hefur mann til hærri hæða.  Á næstu vikum  og sérlega á aðventu er tónlistarlíf á Íslandi hvað öflugast, tónleikar og ýmiss konar tónlistarviðburðir eru nánast alls staðar. Það er því ærin ástæða til þess að bregða sér af bæ og fara og hlýða á fallega tónlist, nú eða þá bara að sitja heima og setja spilarann í gang og svo má auðvitað hlusta á tónlistina í tölvunni.  Hér við hliðina er til að mynda tónlist á tónlistarspilara sem boðið er upp á af höfundi.  Þetta eru allt lög sem komu á geisladiski fyrir rúmum þremur árum.  Njótið vel. 

Hannes Hólmsteinn og lygi tölfræðinnar

Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir hina þjóðþekktu persónu Hannes Hólmstein Gissurarson, þar sem hann reynir eina ferðina enn að ljúga því að þjóðinni að Davíð Oddsson sé þrátt fyrir allt bara mikil hetja og drengur góður.  Hann sé ekki eins óvinsæll og skoðanakannanir sýna.  Hann reynir að leika sér með tölur og gerir lítið úr venjulega fólki sem skilur venjulegar tölur.  Það er með ólíkindum og af hvötum sem illgerlegt er að skilja hvernig HHG getu reynt að hvítþvo vin sinn með þessum hætti.  Þegar ég lærði tölfræði í háskólanum var mér bent á að kaupa bók sem heitir (og er örugglega til á Amazon) "How to lie with statistics" og er kennslubók í því hvernig hægt er að notfæra sér tölur,bæði úr skoðaðakönnunum og rannsóknum  til þess að ljúga.  Þessi bók hlýtur að vera til í bókahyllu Hannesar Hólmsteins Gissuararsonar, prófessors. 

Verðbréfasalinn

Í júlí 2005 gaf ég út geisladisk með 13 lögum sem ég hafði samið.  Diskurinn heitir Plokkfiskur, (sönglög handa íslenskri alþýðu).  Eitt laganna heitir Verðbréfasalinn, efni sem mér var hugleikið þá en á fullt erindi ennþá og kannski ekki síður nú en þegar þetta var samið.  Lagið er á tónlistarspilaranum hérna vinstra megin.

Verðbréfasalinn

Verðbréfasalinn hann fór ekki til vinnu í dag,

Hann sagðist þurfa að koma heilsunni betur í lag,

Hann vinnur eins og svín,

Og kemur seint heim til sín,

Hann kann svo æðislega, ofboðslega vel við sitt fag.

 

Læknirinn sagði að líkaminn væri í rúst,

Láttu það nú eftir þér að taka þér frí í ágúst,

“Nei, ég hef ekki efni á því,

Því mig vantar húsgögnin ný,

Ég vil alls ekki enda mína ævi upp á gamalli þúst.

 

Út að borða í hádeginu hátt settum mönnunum með,

Ég held ég verði að segja að það er mér ekki þvert um geð,

Við spáum vísitölu í,

Og vinnum allir í því,

Að verðbréfavæða jafnvel aumustu og smæstu peð.

 

Ég ætla að flytja í æðislegt einbýli í Arnarnesið,

Og ekkert verður sparað þegar innrétta á eldhúsið,

Ég vil aðeins það besta,

Já öfund altekur flesta,

Sem finnst þeir ættu að hafa það jafn andskoti gott eins og við.

 

Ég auka vinnu tek að mér og ekki það eftir mér tel,

Mig endilega vantar nýja alsjálfvirka þvottavél,

Og nýjan gemsa að tala’ í,

Og silkibindi frá Malí,

Ég ömmu mína fyrir skít og kanel samviskulaus bara sel”.

 

Verðbréfasalinn hann kom ekki til vinnu í dag,

Hann verður jarðsunginn næsta miðvikudagseftirmiðdag.


Hættu að bíða

Við erum öll að bíða eftir að eitthvað gerist, erum öll eins og félagarnir í hinu fræga leikriti Beðið eftir Godot eftir Samuel Becket.  Öll að bíða.  Þetta skeyti fékk ég einhvern tíma í tölvupósti og það hangir uppi á ísskáp í eldhúsinu hjá mér:  "Hættu að bíða eftir að þú ljúkir námi, farir aftur í nám, að þú léttist um 10 kíló eða þyngist um annað eins, að þú gangir í hjónaband, að þú fáir skilnað, nýjan bíl eða nýja íbúð, að þú eignist börn, að börnin fari að heiman, að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna.  Hættu að bíða eftir föstudagskvöldinu, að fjárhagurinn komist í lag, að útborgunardagur launa renni upp, að vorið gangi í garð, að sumarið banki upp á, að snjórinn byrji að falla.  Hættu að bíða eftir því að þú sláir í gegn.  Minnstu þess að núna er stundin til að vera hamingjusamur, hættu að drepa tímann , því að tíminn er þitt eigið líf.  Lifðu lífinu.  Njóttu augnabliksins.  Þú átt bara þetta eina líf." 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband